Loka valmynd

Stuðningsþjónusta

Stuðningsþjónusta

Stuðningsþjónustu er ætlað að aðstoða fólk sem þarf stuðning til að geta séð um sig sjálft, svo sem aðstoð við almennt heimilishald, persónulega umhirðu og félagslegan stuðning. Fötluðu fólki stendur til boða félagsleg þjónusta og sérstakur stuðningur til að geta búið á þann hátt sem hentar hverjum og einum. Þessi þjónusta á að taka mið af aðstæðum, óskum og þörfum hvers og eins.

Félagsleg liðveisla er persónulegur stuðningur og aðstoð sem er ætlað að rjúfa félagslega einangrun og styrkja fólk til þátttöku í menningar- og félagslífi. Liðveisla er veitt fötluðum börnum frá 6 ára aldri, sem og fullorðnu fötluðu fólki.

Hægt er að sækja um þjónustu heim á formi félagslegrar heimaþjónustu og frekari liðveislu, hvort sem fólk býr í eigin íbúð, leiguíbúð á almennum markaði eða félagslegri leiguíbúð.

Fjölskyldur fatlaðra barna eiga kost á stuðningsfjölskyldu sem hefur það hlutverk að taka barnið í umsjá sína í skamman tíma til að létta álagi af fjölskyldu þess. Þörf fyrir þjónustu er metin út frá aðstæðum barns og fjölskyldu. Við matið er horft til fötlunar barnsins og umönnunarþarfar, sem og félagslegra aðstæðna fjölskyldunnar.

Skammtímadvöl er ætlað að veita fötluðum börnum og fullorðnum tímabundna dvöl til tilbreytingar eða til að létta álagi af aðstandendum vegna erfiðra heimilisaðstæðna, svo sem veikinda eða annars álags. Vistunin er því ýmist reglubundin eða veitt til ákveðins tíma og er dvalartíminn breytilegur eftir aðstæðum hvers og eins. Á þjónustusvæði Bergrisa er ein skammtímadvöl og er hún staðsett á Selfossi.

Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) er aðstoð sem byggir á hugmyndafræði um sjálfstætt líf. Fólk sem notar NPA stýrir sjálft fyrirkomulagi þjónustunnar og ákveður hvaða aðstoð er veitt, hvernig hún er skipulögð, hvenær og hvar hún fer fram og hver veitir hana.

Til að eiga rétt á NPA þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 • Eiga lögheimili á starfssvæði skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings þegar stuðningur hefst.
 • Þurfa stuðning í meira en 15 klukkustundir á viku.
 • Vera með staðfesta fötlunargreiningu.
 • Vera orðinn 18 ára. Ef um barn er að ræða þurfa foreldrar að sækja um.
 • Búa sjálfstætt eða í foreldrahúsum.
 • Ef þú býrð í húsnæði fyrir fatlað fólk getur þú sótt um NPA ef stefnt er að flutningi í sjálfstæða búsetu.

Að sækja um NPA

Fyrsta skref er að panta viðtal við ráðgjafa hjá skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings. Þar er farið yfir stöðu þína og þarfir. Í framhaldinu er tekin sameiginleg ákvörðun um hvaða stuðningur hentar og umsókn undirrituð.

Umsókn um NPA skal fylgja staðfesting á fötlunargreiningu, sjálfsmat, örorkumat og SIS-mat ef við á.

Þegar undirrituð umsókn liggur fyrir er næsta skref formlegt mat á stuðningsþörf.

Matið tekur mið af stöðu þinni með tilliti til eftirfarandi þátta:

 • Færni, geta og styrkleikar
 • Félagslegar aðstæður og tengslanet
 • Virkni og þátttaka í samfélaginu
 • Hugsanlegar afleiðingar sem töf á stuðningi hefur
 • Annar stuðningur

Ef formlegt mat leiðir í ljós að stuðningsþörf þín er minni en 15 klukkustundir á viku eða að þú uppfyllir ekki öll skilyrði er umsókn synjað og þér bent á annan stuðning sem stendur til boða. Sé umsókn samþykkt vinnur ráðgjafi samkomulag um vinnustundir í samvinnu við þig. Samþykktar umsóknir fara á bið eftir úthlutun. Á biðtíma er haft reglulegt samráð við þig og upplýst um stöðu mála og þá þjónustu sem stendur til boða á biðtímanum.