Ferli barnaverndarmála
Eftir móttöku tilkynningar taka starfsmenn barnaverndarnefndar ákvörðun um hvort tilefni sé til að hefja könnun máls. Er það gert innan sjö daga frá því að tilkynning berst. Sú ákvörðun er tekin á vikulegum teymisfundum nema tilefni sé talið til þess að bregðast við án tafar. Foreldrar eru ávallt látnir vita að tilkynning hafi borist. Undantekning á þessu verklagi er þegar barn er talið í hættu í umsjá foreldra og/eða þegar það er talið þjóna hagsmunum barnsins að foreldrar viti tímabundið ekki af könnuninni.
Ef tilkynningin byggist á rökstuddum grun ber barnavernd að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barnsins sem í hlut á, tengsl þess við foreldra eða aðra, aðbúnað þess á heimili, skólagöngu, hegðun á heimili og utan þess, svo og um andlegt og líkamlegt ásigkomulag. Rétt er að taka fram að þessara upplýsinga er aflað með vitneskju foreldra nema sérstakar ástæður þyki til. Ef upplýsingar staðfesta ekki grun er máli lokið. Að öðrum kosti skal barnavernd, í samráði við foreldra, gera skriflega áætlun um meðferð málsins, þar sem tilgreint er hvernig hagsmunir barnsins verði best tryggðir.
Sjá nánar: reglur skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings um meðferð barnaverndarmála.